Fræðsla og menntun félagsmanna

Markmið fræðslu- og menntasjóðanna er að auðvelda félagsmönnum fjárhagslega að sækja sér menntun. Hér er ekki eingöngu átt við hefðbundið nám heldur einnig ýmis styttri námskeið.
Félagið sér um umsýslu fyrir alla sjóðina og sækir félagsmaðurinn um styrkinn til félagsins.
Þar sem starfsgreinar félagsins eru nokkuð margar eru félagsmenn í mismunandi sjóðum.

Aðild félagsmanna að starfsmenntasjóðum er eftirfarandi:
  • Landsmennt - verkafólk á almenna markaðnum
  • Ríkismennt - félagsmenn er starfa hjá Ríkinu
  • Sjómennt – sjómenn
  • Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks
  • Sveitamennt – félagsmenn er starfa hjá sveitarfélögum
Hér hægra megin á síðunni má skoða hvern sjóð nánar.

Landsmennt

Landsmennt er fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni. Aðildarfélögin eru 16 og er þar um að ræða stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands.

Helstu verkefni Landsmenntar eru að sinna stuðningsverkefnum og þróunar-og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun. Sjóðnum er ætlað að styrkja rekstur námskeiða og stuðla að nýjungum í námsefnisgerð ásamt því að veita einstaklingum, verkalýðsfélögum og fyrirtækjum beina styrki vegna sí-og endurmenntunar.  

Einstaklingar sækja um styrki á þar til gerðum eyðublöðum til viðkomandi stéttarfélags sem sér um afgreiðslu þeirra í umboði Landsmenntar.

Ríkismennt

Ríkismennt SGS er þróunar-og símenntunarsjóður starfsmanna ríkisins á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Sjóðurinn tók formlega til starfa 1. júní 2005.

Markmið sjóðsins er annars vegar að efla símenntun starfsmanna og hins vegar að auka möguleika stofnana á að þróa starfsvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma.

 

Sjóðurinn skiptist í tvær deildir og sinnir hlutverki sínu með eftirfarandi hætti:


Þróunar-og stofnanadeild

Veitir styrki til fræðsluverkefna hjá þeim stofnunum og vinnuveitendum sem í sjóðinn greiða

Veitir styrki til fræðsluverkefna hjá þeim stéttarfélögum sem að sjóðnum standa

Fjármagnar þau verkefni sem sjóðsstjórn skipuleggur


Starfs-og símenntunardeild

Veitir styrki til einstaklinga, félagsmanna aðildarfélaganna, til þess að þeir geti átt kost á að sækja nám/námskeið með vinnu án verulegs kostnaðar

 

Hvernig er sótt um styrk?

Einstaklingar sækja um styrk á þar til gerðum eyðublöðum hjá viðkomandi stéttarfélagi sem sér um afgreiðslu í umboði Ríkismenntar.

Sjómennt

Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og starfar samkvæmt samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við Sjómannasamband Íslands. Sjóðurinn er í tveimur hlutum og veitir annars vegar fyrirtækjastyrki og hins vegar einstaklingsstyrki.


Helstu verkefni Sjómenntar eru að sinna stuðningsverkefnum og þróunar-og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun. Sjóðnum er ætlað að styrkja rekstur námskeiða og stuðla að nýjungum í námsefnisgerð ásamt því að veita einstaklingum, verkalýðsfélögum og fyrirtækjum beina styrki vegna sí-og endurmenntunar. 

 

Einstaklingar sækja um styrki á þar til gerðum eyðublöðum til viðkomandi stéttarfélags sem sér um afgreiðslu þeirra í umboði Sjómenntar.

Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks

Sjóðurinn er stofnaður á grundvelli kjarasamnings á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og VR og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) hins vegar dags. 14. maí 2000.

 

Sjóðurinn er hýstur hjá VR og sér VR um að tryggja rekstur sjóðsins og afgreiðslu styrkja.

 

Hlutverk Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks samanstendur af fimm atriðum, en þau eru:

 

  • Að auka starfshæfni og menntunarstig félagsmanna sjóðsins sem leitt gæti til virðisauka fyrir þá og fyrirtækin.
  • Að bæta samkeppnishæfni fyrirtækja sem greiða í sjóðinn með aukinni menntun starfsfólks.
  • Að stuðla að aukinni virðingu fyrir störfum í verslunar-, þjónustu- og skrifstofugreinum með því m.a. að styðja við áframhaldandi þróun náms fyrir þá sem starfa við þau.
  • Að hvetja félagsmenn til náms.
  • Að hvetja fyrirtæki til að hækka menntunarstig í fyrirtækjum.

Sveitamennt

Sveitamennt SGS og LN er starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands.


Sveitamennt tók formlega til starfa 1. janúar 2007 og byggir á gr. 13.4.3. um starfsmenntunarsjóð í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga (LN) og Starfsgreinasambands Íslands (SGS).


Markmið sjóðsins er annars vegar að auka möguleika sveitarfélaga og stofnana þeirra á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma og efla starfsmenntun starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni.


Sveitamennt skiptist í tvær deildir og sinnir hlutverki sínu með eftirfarandi hætti:


Sveitarfélagadeild sinnir hlutverki sínu með því að veita styrki til fræðsluverkefna á sviði starfsmenntunar sem eru í samræmi við markmið sveitarfélaga sem í sjóðinn greiða; stéttarfélaga sem að sjóðnum standa; eða verkefna sem sjóðstjórn skipuleggur. Auk þess styrkir deildin verkefni sem aðilar semja um í kjarasamningi.


Einstaklingsdeild veitir styrki til einstaklinga, félagsmanna aðildarfélaganna til þess að þeir eigi kost á að sækja nám/námskeið með vinnu án verulegs kostnaðar.