Lög fyrir Stéttarfélagið Samstöðu.  Samþykkt á stofnfundi 31. október 2009.
Síðast breytt á aðalfundi 27.04.2017.
 
1.grein - nafn og hlutverk
Félagið heitir Stéttarfélagið Samstaða, og félagssvæðið er Húnavatnssýslur og Bæjarhreppur í Strandasýslu. Félagið er aðili að eftirtöldum landssamböndum, sem eru aðilar að Alþýðusambandi Íslands:
• Landssambandi íslenskra Verslunarmanna
• Sjómannasambandi Íslands
• Samiðn, samband iðnfélaga 
• Starfsgreinasambandi Íslands
• Þá er félagið aðili að Alþýðusambandi Norðurlands.
Heimili félagsins og varnarþing er að Þverbraut 1 Blönduósi.
 
2.grein - Tilgangur
a. Tilgangur félagsins er sameina allt launafólk sem starfar á félagssvæðinu sbr. 1. tölulið 3. gr.
b.   að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör,   bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna
c. að veita félagsmönnum sínum sem besta þjónustu. 
d. að vinna að fræðslu – og menningarmálum.
 
3.grein - Inngönguskilyrði
Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:
• vinna þau störf sem falla undir kjarasamninga þeirra landssambanda sem getið er í 1. grein
• eru fullra 16 ára
• standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ
.
4.grein. - Innganga í félagið
Um inngöngu í félagið skal sækja skriflega til félagsstjórnar. Formaður ber síðan inntökubeiðnina undir atkvæði á næsta fundi í félaginu. Verði meirihluti á fundinum með inntökubeiðninni, er umsækjandinn orðinn löglegur félagi og fær hann þá félagsskírteini. Stjórn eða stjórn og trúnaðarmannaráð getur veitt nýjum meðlimum inngöngu og öðlast þá umsækjandinn þá þegar réttindi á félagssvæðinu og er þá jafnframt skuldbundinn öllum skyldum við félagið samkvæmt lögum þessum.
Um iðgjöld þeirra sem ekki kjósa að gerast félagsmenn, gilda ákvæði kjarasamninga félagsins á hverjum tíma.
 
5.grein - Aukafélagar
Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs, þá sem greiða til félagsins en hafa ekki óskað eftir inngöngu sbr. 4. gr. og aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum sem félagið hefur gert og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eru félagar í öðru félagi.
Aukafélagar greiða fullt gjald til félagsins meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi. 
Samninganefnd getur þó ákveðið við afgreiðslu einstakra mála, í tengslum við kjarasamninga, að aukafélagar hafi atkvæðisrétt.
Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru hinar sömu og gagnvart aðalfélögum.
 
6.grein - Deildir félagsins
Félagið er deildaskipt eftir starfsgreinum. Þær eru: sjómannadeild, verslunarmannadeild, deild starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum, almenn deild, og deild iðnaðarmanna. 
Deildirnar fara með kjaramál og önnur sérmál sín í samráði við stjórn félagsins.
Deildirnar kjósa sér þriggja manna stjórn árlega. Yfirstjórn og fjármál skulu vera á hendi stjórnar félagsins.
Reglugerð um starfssvið deildar skal hljóta samþykki aðalfundar deildarinnar og fá staðfestingu trúnaðarráðs félagsins og viðkomandi landssambands
Að fengnu samþykki trúnaðarráðs er heimilt að stofna nýjar deildir innan félagsins.
 
7.grein - Úrsögn
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og afhendast á skrifstofu félagsins. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, og þar til vinnustöðvun hefur verið formlega aflýst, ef vinnustöðvun hefur verið samþykkt. Eins er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf meðlima annarra félaga innan ASÍ sem eiga í vinnudeilum.
 
8.grein - Eldri félagsmenn
Félagsmenn sem eru orðnir 70 ára skulu vera gjaldfríir. Þrátt fyrir það skulu þeir halda fullum félagsréttindum að því undanskildu að við afgreiðslu kjarasamninga falla þeir út af kjörskrá 12 mánuðum eftir að félagsgjaldi hefur verið skilað af viðkomandi.
 
II kafli Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir,brottrekstur.
 
9.grein - Réttindi félaga
Réttindi félagsmanna og greiðenda til sjóða félagsins eru eftirfarandi:
Auk annarra réttinda njóta fullgildir félagar: málfrelsis, tillögu- og atkvæðisréttar á félagsfundum, svo og kjörgengi. Atkvæðisréttur um kjarasamninga fer eftir nánari ákvörðun félagsfundar.
Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðum sjóðanna.
Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.
Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.
 
10.grein – Skyldur félaga
Skyldur félagsmanna eru:
• Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
• Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó getur starfandi stjórnarmaður sem verið hefur 3 ár eða lengur í stjórn félagsins samfellt skorast undan endurkjöri í jafnlangan tíma. Sama regla skal gilda um önnur trúnaðarstörf fyrir félagið nema trúnaðarmenn á vinnustöðum, þar skal gilda ákvæði í reglugerð um trúnaðarmenn. 
• Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í stéttarfélagið og tilkynna til félagsins brot á lögum og samþykktum félagsins.
 
11.grein - Félagsgjöld og réttindamissir
Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og skulu innheimt sem ákveðið hlutfall af launum en þó er heimilt að ákveða lágmarks og hámarksgjald.
Félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd.
Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagsskrá. Stjórn félagsins getur veitt þeim sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða stunda nám eftirgjöf á félagsgjaldi.
 
12.grein – Viðurlög
Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.
Hver sá maður er rekin úr félaginu í lengri eða skemmri tíma sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu.
Úrskurði félagsfundar um áminningu eða brottvísun félagsmanns má vísa til viðkomandi landssambands og Alþýðusambands Íslands, en úrskurður félagsfundar gildir þar til sambandið ákveður annað.
Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á stjórnarfundi.
 
III kafli – Stjórn og trúnaðarráð.
 
13.grein – Stjórn
Stjórn félagsins skipa 9 stjórnarmenn: Annars vegar formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri . Skulu þeir ekki kjörgengir sem formenn deilda á meðan þeir gegna þessum embættum. Kjöri þeirra skal lýst á aðalfundi. Formenn deilda félagsins eiga einnig sæti í stjórn og varaformenn deilda í forföllum þeirra. Kjósa skal einnig vararitara og þrjá aðra varamenn í stjórn.
 
14.grein - Störf stjórnar
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda, sbr. 18. gr. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum og fjárhag félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum sem hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum sem trúnaðarstarf hans varðar.
 
15.grein - Formaður
Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Formaður gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna. Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans. Stjórn ræður starfsfólk til félagsins.
 
16.grein - Ritari
Ritari ber ábyrgð á því að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Heimilt er að skrá fundargerðir á tölvu. Sé fundargerð ekki afgreidd á fundinum , skal senda hana til allra þeirra sem fundinn sátu, ekki síðar en fyrir næsta fund, og þeim gefinn frestur til að koma að athugasemdum í síðasta lagi á næsta fundi.
Heimilt er að taka fundi félagsins upp á hljóð- og/eða myndband.
 
17.grein- Trúnaðarráð
Trúnaðarráð skal vera starfandi í félaginu. Í ráðinu eiga sæti stjórn félagsins og stjórnir deilda. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.
Formaður kveður trúnaðarráð til funda bréflega með a.m.k. sólarhringsfyrirvara. Skylt er formanni að boða trúnaðarráð til fundar ef þriðjungur þess óskar og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarráðsfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. 
Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar þegar félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður einfaldur meirihluti úrslitum í slíkum málum.
Trúnaðarráð kýs samninganefndir félagsins og ber ábyrgð á kjarasamningagerð þess.
 
18.grein Kjörstjórn
Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórnarkjör, stjórna atkvæðagreiðslum um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins, lögum ASÍ og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Kjörstjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.
 
IV. kafli Fundir og stjórnarkjör
 
19.grein – Félagsfundir
Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 50 fullgildir félagsmanna óska þess við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst sólarhrings fyrirvara með uppfestum auglýsingum, í útvarpi eða bréflega. Þó má í sambandi við vinnudeilur boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Komi upp ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Komi fram ósk um skriflega atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.
 
20.grein – Aðalfundur
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með minnst 7 sólarhringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. 
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
• Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
• Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
• Lýst kjöri stjórnar félagsins.
• Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.
• Kosning til annarra stjórna, nefnda og ráða sem lög og reglugerðir félagsins gera ráð fyrir.
• Kosning tveggja manna í kjörstjórn og tveggja til vara.
• Lagabreytingar, ef fyrir liggja.
• Ákvörðun félagsgjalda.
• Önnur mál.
 
21.grein Stjórnarkjör
Skylt er að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar, annarra en formanna deilda sem sæti eiga í stjórn, og skal tilhögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ.
Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára sem hér segir: Annað árið formann, gjaldkera og hitt árið varaformann og ritara. Þá skal kjósa vararitara og 3 aðra varamenn. Vararitara og 1 varamann það ár sem formaður er kjörinn og 2 varamenn það ár sem varaformaður er kjörinn. Formenn starfsgreinadeilda eru sjálfkjörnir í stjórnina og skulu varaformenn deildanna vera varamenn þeirra.
Í janúar ár hvert skal á fundi stjórnar kjósa uppstillinganefnd fyrir félagið. Þrír skulu eiga sæti í uppstillingarnefnd. Fyrir 20. febrúar hvert ár skal stjórn félagsins halda trúnaðarráðsfund, þar sem tillögur uppstillingarnefndar um fulltrúa í trúnaðarstöður til næstu eins og tveggja ára skulu kynntar og síðan bornar undir trúnaðarráð til afgreiðslu. Skal hver staða á lista kjörnefndar borin upp sérstaklega og skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg ef breytingartillaga eða tillögur koma fram um lista uppstillingarnefndar.
Trúnaðarráð leggur síðan fram tillögur við stjórnarkjör í félaginu eigi síðar en 1. mars. Þar skal gerð tillaga um alla þá sem kjósa skal.
Að lokinni tillögugerð trúnaðarráðs auglýsir kjörstjórn félagsins tillögu trúnaðarráðs og gefur félagsmönnum a.m.k. 14 sólarhringa frest til að bera fram aðrar tillögur. Er hvert það framboð gilt sem fram kemur innan þess tíma, og hefur skriflegt samþykki þess sem er í framboði og meðmæli a.m.k. 30 fullgildra félaga.
Komi fram fleiri tillögur í tiltekið embætti en tillaga trúnaðarráðs segir fyrir um skal kjörstjórn láta kjósa á milli þeirra í allsherjaratkvæðagreiðslu í fyrsta lagi 1. apríl og í síðasta lagi 10. apríl.
Komi hins vegar ekki fram fleiri tillögur í tiltekið embætti en tillaga trúnaðarráðs teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir.
Kosningu skal lýst á aðalfundi og tekur þá nýkjörin stjórn við félaginu.
 
V. kafli – Fjármál
 
22.grein – Félagsgjald
Aðalfundur skal ákveða upphæð félagsgjalds.
 
23.grein – Útgjöld
Af tekjum félags skal greiða öll útgjöld þess. Við meiri háttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki trúnaðarráðs.
 
24.grein – Skoðunarmenn og löggilt endurskoðun 
sjóða félagsins
Tveir félagslegir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir á aðalfundi. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og/eða stjórn hafa ákveðið. Auk athugunar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs. Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn, 7 dögum fyrir aðalfund.
 
25.grein - Sjóðir félagsins
Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins skulu vera: Félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofssjóður, vinnudeilusjóður,endurmenntunarsjóður, fræðslusjóður svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Sjúkrasjóður , vinnudeilusjóður og fræðslusjóður hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.
Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum í bönkum eða í sparisjóðum, í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign eða á annan hátt er stjórn félagsins og trúnaðarráð metur tryggan og sem samræmast reglum ASÍ hér að lútandi.
Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.
Um fjármál félagsins fer og skv. lögum og viðmiðunarreglum ASÍ.
 
VI. kafli. – Siðareglur
 
26.grein – Siðareglur.
Félagið setur sér siðareglur til viðmiðunar vegna aðkomu fulltrúa félagsins að málum félagsmanna og félagsins sjálfs er varða:
1. Persónugreinanleg gögn og persónuupplýsingar.
2. Fjármál og hagsmunatengsl.
3. Stefnumál félagsins.
 
27.grein - Gildistaka og breytingar siðareglna.
Stjórn Stéttarfélagsins Samstöðu skal endurskoða siðareglur félagsins er ástæða þykir til eða siðanefnd félagsins mælist til endurskoðunar. Endurskoðaðar reglur er stjórn hefur samþykkt skal bera upp til samþykktar eða synjunar á næsta aðalfundi félagsins. Ræður einfaldur meirihluti afgreiðslu aðalfundar.
 
28.grein - Siðanefnd.
Aðalfundur félagsins kýs ár hvert siðanefnd . Siðanefnd er skipuð þremur félagsmönnum, að auki skal velja þrjá varamenn. Einn fulltrúanna skal koma úr stjórn en tveir utan hennar, sama gildir um varamenn. Nefndin getur kallað til lögmann Samstöðu sem er nefndinni til ráðgjafar.
Hlutverk siðanefndar verður að leggja mat á hvort tiltekin atvik eða kringumstæður séu brot á siðareglum félagsins eða um refsiverða háttsemi sé að ræða. Einnig skal siðarnefnd koma með tillögur um úrbætur á reglum um ferðakostnað, risnu og gjafir sem og siðareglum félagsins sem eru lagðar fyrir stjórn til afgreiðslu.
 
29.grein - Málskotsréttur.
Viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi skal fá tækifæri til að standa fyrir máli sínu og svigrúm til að afla ganga ef þörf er á, áður en siðanefnd skilar skýrslu um málið. Samhliða því sem siðanefnd leggur skýrslu sína fyrir stjórn skal viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi fá að skila greinargerð sinni og andsvari við skýrslu siðanefndar til stjórnar Samstöðu. Teljist fulltrúi í stjórn hafa brotið siðareglur Samstöðu víkur hann af fundi á meðan fjallað er um málið.
Stjórn félagsins fjallar um niðurstöðu Siðanefndar og ákvarðar framhald mála.
Teljist brot alvarlegt skal kynna niðurstöðu Siðanefndar á næsta fundi trúnaðarráðs félagsins.
Kafli um siðareglur samþykktur á aðalfundi Stéttarfélagsins Samstöðu 25.4.2012.
 
VII kafli – Lagabreytingar og allsherjaratkvæðagreiðsla.
 
30.grein – Lagabreytingar.
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi, hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í fundarboði. Jafnframt er heimilt að breyta lögum félagsins með allsherjaratkvæðagreiðslu skv. reglugerð ASÍ þar að lútandi.
Til þess að breytingin nái fram að ganga á fundi verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna. Meirihluta atkvæða þarf til lagabreytinga í allsherjaratkvæðagreiðslu.
Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.
Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og hlutaðeigandi landssamband hefur staðfest þær.
 
31.grein - Allsherjaratkvæðagreiðsla
Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa: 
• Við stjórnarkjör í félaginu.
• Þegar stjórn félagsins eða lögmætur félagsfundur samþykkir að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu. Slíkar atkvæðagreiðslur er þó aðeins hægt að viðhafa um mál sem lögð eru þannig fyrir að hægt er að svara já eða nei eða kjósa milli tveggja tillagna.
 
VIII.kafli – Félagsslit o.fl.
 
32.grein – Félagsslit
Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað stéttarfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins. 
Um úrsögn félagsins úr ASÍ eða samtökum sem aðild eiga að því fer samkvæmt lögum ASÍ.
Lög sjúkrasjóðs Stéttarfélagsins Samstöðu.    Þannig samþykkt á stofnfundi 31. október 2009. 
Síðast breytt á aðalfundi 29.apríl 2024.

1.gr. Nafn sjóðsins og heimili.
1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Stéttarfélagsins Samstöðu.
1.2 Sjúkrasjóður Stéttarfélagsins Samstöðu er stofnaður með tilvísun til laga nr. 19, 1. maí 1979 og sjóða félaga sem sameinaðir voru sjúkrasjóði.
1.3 Sjúkrasjóður Stéttarfélagsins Samstöðu er eign Samstöðu. Heimili hans og varnarþing er á Þverbraut 1 Blönduósi.

2.gr. Verkefni sjóðsins.
2.1. Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum Sjúkrasjóðs Stéttarfélagsins Samstöðu fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins.
2.2. Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar.

3.gr. Tekjur
3.1. Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.
3.2. Vaxtatekjur og annar arður.
3.3. Gjafir, framlög og styrkir.
3.4. Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins/sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.

4.gr. Stjórn og rekstur.
4.1. Stjórn sjóðsins skal skipuð 3 mönnum og jafnmörgum til vara. Stjórn sjóðsins skal þannig skipuð: Stjórn Stéttarfélagsins Samstöðu skipar einn aðalmann til tveggja ára í senn og einn til vara. Tveir aðalmenn og tveir varamenn skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Annar aðalmaður og annar varamaður annað hvert ár.
4.2. Stjórn Sjúkrasjóðsins ber ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins.
4.3. Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslureglum.
4.4. Heimilt er að fela skrifstofu Stéttarfélagsins Samstöðu fjárreiður og umsjón með sjóðnum. Þó skal halda bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum Samstöðu.
4.5. Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum.

5.gr. Bókhald, reikningar og endurskoðun.
5.1. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund Samstöðu.
5.2. Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.
5.3. Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 12.gr.
5.4. Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 3.mgr. 44.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.

6.gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila.
6.1 . Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.
6.2. Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þessa með ársreikningi sjóðsins.
6.3. Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Sérstaka grein skal gera fyrir áhrifum á afkomu sjóðsins vegna ákvarðana skv. greinum 12.3 og 12.4.
6.4. Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7.gr. Ávöxtun sjóðsins.
7.1. Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti;
a) í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs,
b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,
c) í bönkum eða sparisjóðum,
d) í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins,
e) á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11.gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41.gr. laga ASÍ.
d) Heimilt er sjóðnum að taka þátt í skrifstofukostnaði félagsins og skal þá gerður um það sérstakur samningur.

8.gr. Ráðstöfun fjármuna.
8.1.       
a) Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni.
b) Þegar um er að ræða ráðstöfun fjármuna til verkefna sem ekki falla undir megintilgang sjóðsins með beinum hætti skal tryggt að um eðlilega ávöxtun þess fjármagns sé að ræða, sbr. a, b og c lið greinar 7.1.
c) Fari félagið út í húsnæðiskaup sem m.a. yrði notuð fyrir félagsmenn eða fjölskyldur þeirra sem leita þurfa læknisaðstoðar, er sjóðsstjórn heimilt að taka þátt í þeim kaupum og rekstri, eftir því sem staða sjóðsins leyfir hverju sinni.

9.gr. Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði.
9.1. Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 10. gr.
9.2. Einungis þeir sem sannanlega greiða eða er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast.
9.3. Þeir sem greidd hefur verið af til sjóðsins 1% iðgjöld eða meira í a.m.k. 6 mánuði.
9.4. Hafi umsækjandi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu til sjóðsins, sbr. 10. gr.
9.5. Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

10.gr. Samskipti sjúkrasjóða.
10.1. Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga úr sjúkrasjóði eins verkalýðsfélags, öðlast þann rétt hjá nýjum sjóði skv. þeim reglum sem þar gilda eftir að hafa greitt í þann sjóð í einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrri sjóðnum.
10.2. Vinni maður á fleiri en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu, skal umsækjandi greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt og er heimilt að fresta greiðslu bóta þangað til fyrir liggur staðfesting annarra sjóða á því að umsækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkrasjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa síðan öðrum sjóðum yfirlit yfir þær bætur sem greiddar eru vegna umsækjandans, tegund og fjárhæð bóta.

11.gr. Geymd réttindi.
11. 1. Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ, endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda eða af heimilisástæðum.
11.2. Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum, hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.

12.gr. Styrkveitingar.
12.1. Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði), að       loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
12.2. Dagpeninga samkvæmt skilyrðum gr.12.1, í 90 daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
12.3. Heimilt er að greiða sjóðfélögum dagpeninga samkvæmt skilyrðum gr. 12.1, í 10 daga á ári vegna annarra veikinda barna undir 13 ára aldri, en getur í gr. 12.2 ef þeir missa atvinnutekjur af þeim sökum. Greiðslur frá sjóðnum skulu miðast við þann tíma sem samningsbundnum greiðslum frá atvinnurekanda lýkur. Læknisvottorð barns þarf að fylgja umsókn.
12.4. Dagpeninga samkvæmt skilyrðum gr. 12.1, í 90 daga (3 mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
12.5. Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 180.000.- krónum m.v. starfshlutfall hans. Hafi sjóðfélagaaðild verið skemmri greiðist 1/5 af fullum dánarbótum fyrir hvert ár að fimm árum. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur sömu breytingum og hún.
Við fráfall félaga sem orðnir eru 67 ára eða eldri, eru ekki á vinnumarkaði en hafa verið sjóðsfélagar a.m.k. 5 síðustu ár fyrir starfslok, er heimilt að greiða dánarbætur sem nemi kr. 45.000,- Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans undir 18 ára aldri, eða önnur skyldmenni sem sjá um útför hans. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur sömu breytingum og hún.
12.6 Daga fjölda greiddra dagpeninga skv. 12.1 lið, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.
12.7. Dagpeninga skv. 12.1, 12.2 , 12.3 og 12.4 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Hámark dagpeninga skv. 12.1, 12.2, 12.3 og 12.4, sé kr. 250.000.- á mánuði. Miðast sú upphæð við launavísitölu pr. 1.7.2006 og tekur síðan sömu breytingum og hún.
12.8. Réttur skv. 12.1, 12.2, 12.3 og 12.4 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

13.gr. Aðrar styrkveitingar.
13.1. Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðsfélaga sem hafa greitt sex mánuði til félagsins, í formi forvarnar- og endurhæfingarstyrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar eins og hér segir:
1. Sjóðurinn greiðir 50% af kostnaði félagsmanna vegna meðferðar hjá löggiltum sjúkraþjálfara og sjúkra eða heilsunuddara í allt að 25 skipti. 50% af kostnaði hjá kírópraktor í allt að 10 skipti á hverjum 12 mánuðum. Einnig greiðist kostnaður vegna reglubundinnar krabbameinsskoðunar að fullu og vegna blöðruhálsskoðunar kr. 8.000.
2. Sjóðurinn endurgreiðir 20% af dvalakostnaði á Heilsustofnun NLFÍ Hveragerði, gegn framvísun reiknings.
Einnig greiðir sjóðurinn styrk vegna glasafrjóvgunar og eða tæknifrjóvgunar kr. 100.000,- Styrkurinn er aðeins greiddur einu sinni til hvers aðila.
3. Sjóðurinn endurgreiðir 50% af kostnaði að hámarki kr. 20.000,- á hverju 12 mánaða tímabili, vegna líkamsræktar/heilsueflingar:
a. Mánaðar-árskort í líkamsræktarstöðvar
     b. Mánaðar-árskort í sundlaugar
     c. Leikfimi þ.m. talin sundleikfimi undir leiðsögn viðurkennds leiðbeinanda  s.s. íþróttakennara,
             sjúkraþjálfara.     
     d. Jóganámskeið undir leiðsögn viðurkennds jógakennara.
Gögn sem þurfa að fylgja umsókn: Kvittun, þar sem fram kemur nafn og kennitala seljanda, kaupanda og upphæð.
     4. Sjóðurinn endurgreiðir vegna skoðunar hjá Hjartavernd eða öðrum viðurkenndum stofnunum (áreynslu/þolpróf) kr. 8.000,- á hverju 12 mánaða tímabili.
Gögn sem þurfa að fylgja umsókn: Kvittun þar sem fram kemur nafn og kennitala seljanda, kaupanda og upphæð.
     5. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrk, til kaupa á gleraugum, heyrnartækjum og linsum á hverju 2 ára tímabili, allt að 50% af kostnaði að hámarki kr. 40.000. Einnig er greiddur styrkur vegna barna sjóðsfélaga að 16 ára aldri, kr. 10.000 pr. barn á hverju 12 mánaða tímabili. 
Gögn sem þurfa að fylgja umsókn: Kvittun, þar sem fram kemur nafn og kennitala seljanda, kaupanda og upphæð.
     6. Einnig er greiddur styrkur vegna laseraðgerðar á augum eða augasteinaskipta kr. 40.000,- pr. auga, styrkurinn er aðeins greiddur einu sinni til hvers aðila. Gögn sem þurfa að fylgja umsókn: kvittun, þar sem fram kemur nafn og kennitala seljanda, kaupanda og upphæð.
     7. Sjóðurinn greiðir styrk vegna kaupa á stoðtækjum allt að 20% , þó að hámarki kr. 20.000 á ári.
     8. Greitt er fyrir viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða fjölskylduráðgjafa 50% af 10 skiptum á 12 mánaða tímabili að hámarki kr. 50.000.- 
13.2. Styrkir til stofnana og félagasamtaka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni skv. gr. 2.2.
13.3 Við ráðstöfun fjármuna skv. 12.8 og 12.9 skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á afkomu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.
13.4. Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.
13.5. Þegar alvarleg veikindi, slys eða dauðsfall ber að höndum, eða aðrar óviðráðanlegar orsakir sem sjóðsstjórn metur til fjárhagslegs eða atvinnulegs tjóns fyrir sjóðsfélaga, er sjóðsstjórn heimilt að veita sérstakan fjárstyrk eftir nánari ákvörðun hverju sinni.

14.gr. Lausn frá greiðsluskyldu.
14.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðsstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðsstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

15.gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum.
15.1. Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu Stéttarfélagsins Samstöðu og greiðir sjóðurinn allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.
15.2. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslu dagpeninga og aðra starfstilhögun. Bætur skulu greiddar út einu sinni í mánuði, sem næst mánaðarmótum.
15.3. Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins.
15.4. Umsóknir um dagpeninga svo og aðrar bætur skulu ritaðar á þar til gerð eyðublöð sem liggja frammi á skrifstofum félagsins. Umsókninni skal fylgja læknisvottorð sem tilgreinir þann dag sem veikindi eða slys bar að höndum. Þá er umsækjanda skylt að leggja fram læknisvottorð um það hvenær veikindum lýkur, sé þess óskað. Læknisvottorð greiðist af sjúkrasjóði.

16.gr. Fyrning bótaréttar.
16.1. Réttur til dagpeninga í veikinda og slysaforföllum skv. gr.12.1. og 12.4 fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.
16.2. Réttur til styrkja skv. reglugerð þessari fellur að öðru leyti niður sé þeirra ekki vitjað innan 6 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.

17.gr. Endurgreiðsla iðgjalda.
17.1. Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.

18.gr. Upplýsingaskylda.
18.1. Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðsfélaga um rétt þeirra til aðstoðar sjóðsins á aðgengilegan hátt m.a. með útgáfu bæklinga, dreifirita og/eða á heimasíðu félagsins.

19.gr. Breyting á fjárhæðum og styrkjum.
19.1. Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund breytingar á almennum reglum um fjárhæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.

20.gr. Breytingar á reglugerðinni.
20.1. Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi og þurfa þær að vera samþykktar með 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði.
20.2. Breytingar á reglugerðinni skulu sendar skrifstofu ASÍ þegar og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.

1.grein Sjóðurinn heitir Orlofssjóður Stéttarfélagsins Samstöðu.
 
2. grein Markmið sjóðsins er: Að kaupa eða leigja orlofshús eða íbúðir, til að auðvelda félagsmönnum að njóta orlofsdvalar.
 
3. grein Tekjur sjóðsins eru: 
• Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins
• Vaxtatekjur
• Leigutekjur vegna húsa/íbúða í eigu sjóðsins
• Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins ákveður hverju sinni.
 
4. grein Stjórn Stéttarfélagsins Samstöðu er jafnframt stjórn Orlofssjóðs og annast fjárreiður hans. Stjórnin tekur ákvarðanir um kaup og sölu eigna svo og fjárveitingar til einstakra verkefna. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins.
 
5. grein Stjórn sjóðsins skal sjá um að fé hans sé sem best ávaxtað á hverjum tíma og á þann hátt sem stjórn sjóðsins metur tryggan.
 
6. grein Heimilt er að greiða úr sjóðnum kostnað vegna reksturs hans. Enga upphæð má greiða úr honum, nema eftir bókaðri ákvörðun sjóðsstjórnar.
 
7. grein Innheimta sjóðsins skal fylgja sömu reglum og innheimta annarra félagsgjalda.
 
8. grein Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi félagsins.
 
Þannig samþykkt á stofnfundi 31. Október 2009.
Reglugerð vinnudeilusjóðs Stéttarfélagsins Samstöðu

1.gr. Sjóðurinn heitir vinnudeilusjóður Stéttarfélagsins Samstöðu
2.gr. Tilgangur sjóðsins er:
Að veita fjárhagslega aðstoð þeim félagsmönnum sem missa atvinnutekjur vegna langvarandi verkfalla eða verkbanna.
Að greiða beinan kostnað félagsins vegna vinnudeilna.
Að styrkja önnur verkalýðsfélög sem eiga í langvarandi vinnudeilum og þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.
3.gr. Tekjur sjóðsins eru:
Framlög félagssjóðs eftir því sem aðalfundur kann að ákvarða hverju sinni.
Vaxtatekjur
Frjáls framlög félagsmanna eða annarra.
4. gr. Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum, kosnum á aðalfundi til eins árs í 
senn. Jafnmargir eru kosnir til vara. Stjórnarmenn skulu vera formaður,vara
formaður og ritari. Stjórnin skiftir með sér verkum.
5. gr. Stjórnin ákveður styrkveitingar úr sjóðnum. Stjórnin skal halda gerðabók,
yfir fundi sína , styrkveitingar og styrkbeiðnir.
Stjórnin úrskurðar einnig um aðrar greiðslur úr sjóðnum. Styrki samkvæmt
3-ja lið 2. gr. má þó því aðeins greiða út að einnig liggi fyrir samþykki félags-
stjórnar. Gjaldkeri félagsins annast vörslu sjóðsins og útborganir eftir
fyrirmælum sjóðsstjórnar.
6. gr. Sjóðurinn skal ávaxtaður á sem hagkvæmastan hátt, en jafnan skal þess gætt
að þegar til vinnudeilna kemur sé nægilegt laust fé til að sinna aðkallandi 
verkefnum.
7. gr. Eigi má veita félagsmanni fé úr sjóðnum nema hann hafi verið fullgildur félags-
maður áður en viðkomandi vinnudeila hófst og sé skuldlaus við félagið.
8. gr. Verði ágreiningur um úthlutun úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður
vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð.
9..gr. Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi með 2/3 atkvæða.
Í reglum þessum á „fulltrúi Stéttarfélags Samstöðu“ við alla fulltrúa Samstöðu í stjórnum, nefndum og ráðum svo og aðra þá sem koma fram fyrir hönd félagsins og gegna trúnaðarstörfum fyrir það. Ákvæði siðareglna félagsins eiga við hvort heldur fulltrúi Samstöðu þiggur laun fyrir störf sín eða ekki.
Þegar unnið er með persónugreinanlegar upplýsingar. Þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, í starfsemi Samstöðu eða sjóða á vegum þess skal farið með þær upplýsingar skv. lögum um persónuvernd nr.77/2000.
Slíkra upplýsingar skal einungis aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og þess gætt að afla ekki eða óska eftir frekari upplýsingum og gögnum en nauðsynilegt er hverju sinni.
Þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuuplýsingar skal eyða þeim. Málefnaleg ástæða til varðveiðslu upplýsinga getur m.a. byggst á lögum um persónuvernd nr.77/2000.
Fulltrúi Samstöðu er bundinn af landslögum sem og lögum þeirra félagseiningar sem hann sinnir stjórnunarstörfum í og sannfæringu sinni um afstöðu einstakra mála. Honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi.
Um hæfni í einstökum málum fer skv. almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga skv. lögum nr.37/1993.
Fulltrúi Samstöðu sem tilnefndur hefur verið til setu í stjórnum, nefndum eða ráðum annarra samtaka, félaga eða stofnana af Samstöðu, skal leitast við að fylgja samþykktum Samstöðu og stefnumálum verkalýðshreyfingarinnar og Samstöðu í störfum sínum í viðeigandi stjórn eftir því er og sannfæring þeirra leyfir. Fulltrúar félagsins skulu og vinna að hagsmunamálum félagsmanna Samstöðu í störfum sínum fyrir félagið. Komi í ljós að sannfæring viðkomandi fulltrúa fer ekki saman við stefnumál eða samþykktir félagsins skal viðkomandi gera formanni félagsins grein fyrir afstöðu sinni og víkja úr sæti sínu sé þess óskað.
Fulltrúum Samstöðu ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að verða áskynja í starfi sínu eða erindum fyrir félagið og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst áfram eftir að látið er af störfum.
Fulltrúum félagsins er óheimilt að birta eða dreifa skjölum sem varðveitt eru í vinnuumhverfi starfsfólks og stjórnar enda sé um ófrágengin vinnuskjöl að ræða. Skjöl sem hafa verið afgreidd af stjórn Samstöðu eða viðeigandi stjórn eða nefnd og eru ekki merkt sérstaklega sem “trúnaðarmál“ er heimilt að birta opinberlega. Útdrátt úr fundargerðum félagsins sem samþykktur hefur verið af stjórn er heimilt að birta opinberlega.
Fulltrúum Samstöðu er óheimilt að þiggja boðsferðir/kynnisferðir af fyrirtækjum og stofnunum nema talið sé að slíkar ferðir hafi upplýsingargildi fyrir félagið og starfsemi þess eða geri þá hæfari til að sinna hlutverki sínu. Ef einhver vafi leikur á upplýsingagildi ferða skal viðkomandi bera slíkt undir formann og stjórn og er hann bundinn af niðurstöðu þeirra.
Fulltrúum Samstöðu er óheimilt að þiggja gjafir eða fjármuni frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra eða erindum fyrir félagið. Undanteknar eru jóla- og afmælisgjafir, sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan hóflega marka. Fulltrúum Samstöðu er hafa áhrif á hvert félagið beinir viðskiptum sínum er óheimilt að hafa milligöngu um viðskipti við aðila er líta má á sem tengdan þeim sjálfum. Með tengdum aðila er t.d. átt við fyrirtæki í eigu þeirra sjálfra að fullu eða hluta, maka eða barna og tengdabarna og/eða annarra náinna skyldmenna. Fulltrúum Samstöðu sem eru félagar í óskyldum félagasamtökum er óheimilt að beita sér fyrir því að Samstaða veiti viðkomandi félagasamtökum fjárstuðning eða beini viðskiptum sínum sérstaklega til viðkomandi samtaka. Ákvæði þetta gildir um hvers kyns fjáraflanir og samskot.
Reglur um ferðakosnað, risnu og gjafir fulltrúa/starfsmanna Stéttarfélags Samstöðu.
Risna og veitingar
Í reglum þessum er greint á milli eftirfarandi aðila:
Prókúrhafar Samstöðu, s.s. formaður og gjaldkeri
Starfsmenn Samstöðu
Fulltrúar Samstöðu, s.s. stjórnarmenn, starfsmenn eða aðrir þeir sem veita forystu í tilteknu máli og koma fram fyrir hönd Samstöðu og í sumum tilfellum leiða hóp fulltrúa t.d. í samninganefnd eða afmörkuðum málaflokkum.
Formaður kemur almennt fram fyrir hönd Samstöðu í samskiptum við önnur félög, landssambönd, fyrirtæki, stofnanir og aðra aðila sem Samstaða hefur samskipti við.
Prókúruhöfum er heimilt að stofna til kosnaðar vegna risnu sem veitt er vegna starfsemi Samstöðu. Prókúruhöfum er skylt að fylla út fylgiskjal þar sem fram kemur:
Hverjum er veitt.
Hvert tilefnið er.
Hver heimilar risnuna.
Veitt risna skal ætíð vera í samræmi við tilefni, s.s. kaffiveitingar eða málsverðir enda kalli tilefni til veitingar.
Veitingar sem veittar eru vegna t.d. samningafunda í Reykjavík og /eða annara funda sem og ferða sem prókúruhafi fer með fulltrúum Samstöðu skal bóka sem ferðakostnað vegna viðeigandi verkefnis en ekki sem risnu, enda séu þiggjendur fulltrúar sem eru að sinna verkefnum fyrir Samstöðu og veitingar eðlilegir málsverðir.
Fulltrúar Samstöðu sem sinna ákveðnum verkefnum í umboði stjórnar eða prókúruhafa hafa rétt til að veita risnu eftir samráð við prókúruhafa. Gilda sömu reglur um þá risnu og samkvæmt 2.málsgrein.
Þegar fulltrúar Samstöðu taka þátt í ráðstefnum, málsþingum eða öðrum formlegum viðburðum þar sem er gert ráð fyrir sameiginlegum máltíðum er fulltrúum Samstöðu heimilt að taka þátt í slíkum málsverðum á kostnað félagsins.
Prókúruhöfum Samstöðu er heimilt í tengslum við þing landsambanda og/eða aðra viðburði þar sem Samstaða á fulltrúa, að greiða hátíðarkvöldverð fyrir fulltrúa félagsins.
Heimilt er að greiða ferðir, veitingar, gistingu og annan kostnað vegna gesta, ræðumanna eða annarra sérfræðinga sem Samstaða fær til að taka þátt í ráðstefnum, fundum eða öðrum verkefnum þess. Prókúruhafar hafa umboð til að bjóða gestum eða kalla til sérfræðiaðstoð vegna verkefna, telji þeir þörf á og tilefni til.
Áfengi skal ekki veitt nema við sérstakar aðstæður. Áfengisveitingum skal stilla í hóf þegar veittar eru. Miðað skal við fordrykk þar sem það á við, hóflega veitt borðvín með mat og drykk með kaffi þegar við á.
 
Færa skal sérstakt fylgiskjal vegna allra veitinga sem veittar eru skv. 5 og 6 gr. Og útgjöldin skráð á viðeigandi kosnaðaliði í bókhaldi.
 
Gjafir
Prókúruhöfum Samstöðu er heimilt að ráðstafa hóflegum fjárhæðum vegna gjafa til handa stjórnarmönnum, fyrverandi stjórnarmönnum, starfsmönnum og/eða öðrum félagsmönnum sem gengt hafa trúnaðarstörfum fyrir Samstöðu. Tilefni slíkra gjafa skal vera t.d. starfslok, stórafmæli eða aðrir viðlíka viðburðir. Gjafir skv. þessum lið færist í bókhald sem risna og skal gerð grein fyrir þeim á risnuyfirliti formanns.
Formanni er heimilt að ráðstafa hóflegri fjárhæð ár hvert til:
Jólagjafa fyrir starfsmenn.
Merktar vörur til dreifingar sem formaður telur við hæfi.
1. maí hátíðarhalda.
Útgjöld skv.lið 9. skal færa sem kostnað á viðeigandi kostnaðarliði í bókhaldi.
Ferðakostnaður
Bifreiðakostnaður er greiddur starfsmönnum Samstöðu svo og öðrum fulltrúum þess skv. akstursskýrslu. Greitt er kílómetragjald skv. ákvörðun fjármálaráðurneytisins hverju sinni. Á akstursskýslu skal koma fram tilefni ferðarinnar, upphafs- og áfangastaður, ekki er greitt akstur fyrir aðal- eða deildarfundi félagsins.
Þegar starfsmenn Samstöðu eða aðrir fulltrúar sækja saman fundi eða viðburði innan svæðis skulu þeir leitast við að sameinast um bíla til að halda ferðakostnaði niðri.
Fylla skal út ferðakostnaðareyðublað vegna ferðakostnaðar.
Dagpeningar
Starfmenn eða fulltrúar Samstöðu sem eru fjarri heimili sínu vegna starfa sinna innanlands skal séð fyrir fæði, að öðrum kosti skuli greiddir dagpeningar skv. Ferðakostnaðarnefnd ríkisins. Þar sem ekki er séð fyrir fæði er fulltrúum/starfsmönnum heimilt að greiða fyrir máltíðir með eigin korti og skila inn kostnaðaruppgjöri þar sem fram kemur tilefni.
Dagpeningar greiðast almennt ekki á skemmri ferðum ( styttri en 6 klukkustundir ). Þegar fulltrúar/starfsmenn Samstöðu sækja fundi, ráðstefnur eða önnur erindi fjarri heimili skal þeim séð fyrir gistingu. Óski fullrúar/starfsmenn Samstöðu ekki eftir að nýta þá gistingu sem er í boði er viðkomandi á eigin vegum.
Vegna ferðalaga erlendis eru greiddir fæðispeningar skv. ákvörðun ferðakostnaðarnefndar Fjármálaráðurneytis. Samstaða greiðir fyrir hótel og ferðir á áfangastað. Ferðir erlendis í þágu Samstöðu skal að öllu jöfnu fjalla um í stjórn áður en þær eru farnar. Í undantekningar tilvikum hefur formaður heimild til að senda fultrúa erlendis í erindum Samstöðu en þá skal gera stjórn grein fyrir ferðinni, kosnaði, tilefni og árangri á næsta stjórnarfundi.
Fulltrúar/starfsmenn Samstöðu skulu fylla út kostnaðaryfirlit vegna dagpeningagreiðslu þar sem frem kemur tilefni ferðar.
 
Bílaleigubílar
Formaður skal sjá til þess að í gildi sé samningur við bílaleigu á sem hagstæðustum kjörum. .
Þegar fleiri fulltrúar Samstöðu dvelja á sama stað í sömu erindum skal halda fjölda bílaleigubíla í hófi þannig að bílar verði samnýttir eins og kostur er.
Þegar fulltrúar Samstöðu dvelja næturlangt fjarri heimili í erindum þess og hafa bílaleigubíl til afnota er þeim heimilt að sinna einkaerindum utan vinnutíma á bílnum enda sé notkun hans stillt í hóf.
Fulltrúar/starfsmenn Samstöðu skulu almennt nota bílaleigubíla af millistærð eða minni. Ekki er heimilt að leigja stærri bílaleigubíla á kosnað Samstöðu nema sérstakt tilefni sé til, t.d. fjöldi farþega eða ófærð, og skal getið um þá ástæðu á fylgiskjali í bókhaldi.
Framkvæmd og brot á reglum þessum
Formaður skal útbúa ár hvert fyrir endurskoðun risnuyfirlit og leggja fyrir stjórn og félagslega endurskoðundur. Ef ástæða þykir til getur stjórn óskað eftir að fá yfirlit um ferðakostnað eða dagpeningagreiðslur.
Telji stjórn ástæðu til að kanna kostnað vegna risnu, ferðakostnaðar eða dagpeninga skal stjórnin vísa málinu til siðanefndar sem getur kallað til lögmann og endurskoðendur til aðstoðar. Siðanefnd skal hafa fullan og óskertan aðgang að bókhaldi félagsins og öllum fylgiskjölum.
Siðanefnd skal meðhöndla slík mál með ýtrasta trúnaði þar til niðurstaða fæst í málið skv. ákvæðum um málsskotsrétt í siðareglum Samstöðu.
Greiddri risnu, ferðakostnaði eða dagpeningum er formaður hefur samþykkt og greitt út verður ekki rift af stjórn nema hún telji að um sviksamlegt athæfi sé að ræða, en þá getur stjórn falið lögmanni Samstöðu að krefja viðkomandi um endurgreiðslu.
Telji stjórn veitta risnu, greiddan ferðakostnað eða dagpeningagreiðslur hafa farið úr hófi fram og tilefni ekki skýrt og ekki í samræmi við vilja stjórnar skal vísað til ákvæða málsskostréttar samkvæmt siðareglum Samstöðu.
Telji stjórn, prókúruhafa Samstöðu, fulltrúa eða starfsmann hafa með sviksamlegum hætti látið Samstöðu bera kostnað sem því er óviðkomandi, falsað eða breytt fylgiskjölum, sagt ósatt um tilefni kostnaðar eða á annan hátt látið Samstöðu greiða kostnað sem félaginu ekki bar að greiða og er starfsemi þess óviðkomandi, sjálfum sér eða öðrum til hagsbótar, er stjórn skylt að grípa til þeirra ráðstafana er hún telur verja hagsmuni félagsins best.