Reykjavík 16. nóvember 2022
Minnumst verkafólks á blóðvöllum HM
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hvetur landsmenn alla, og áhugafólk um knattspyrnu sérstaklega, til að gleyma ekki þeim fórnum sem farandverkafólk færði við byggingu mannvirkja og annan undirbúning vegna heimsmeistaramóts í knattspyrnu karla í Katar.
Talið er að 6.500 manns hafi týnt lífi við störf tengd undirbúningi mótsins. Raunverulegur fjöldi liggur ekki fyrir því stjórnvöld í Katar hafa reynst með öllu ófáanleg að veita upplýsingar um mannfórnirnar.
Katar er einræðisríki sem engin mannréttindi virðir og það var ekki fyrr en eftir þrýsting frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga og öðrum samtökum sem stjórnvöld þar í landi féllust loks á að gera nokkra bragarbót á yfirgengilegum aðbúnaði farandverkafólks sem kunnungir líktu við þrælahald.
Furðu vakti á sínum tíma er Katar varð fyrir valinu til að halda HM í knattspyrnu. Sú undrun kom ekki einvörðungu til af þeirri staðreynd að Katar á sér enga hefð á sviði knattspyrnu og loftslag þar hentar íþróttinni sérlega illa. Strax þá var á það bent að bygging mannvirkja í landinu vegna heimsmeistaramótsins myndi kalla á mikinn aðflutning verkafólks sem starfa myndi við hræðilegar aðstæður og einskis réttar njóta. Þau varnaðarorð létu leiðtogar alþjóðlegrar knattspyrnu sem vind um eyru þjóta. Nú liggur fyrir að þessi hörmulegi spádómur reyndist því miður réttur.
Mótið í Katar er áminning um hvernig málum er komið innan Alþjóða knattspyrnusambandsins. Þar ráða peningarnir för með tilheyrandi græðgi og spillingu. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lætur í ljós þá von að sú bylgja vandlætingar sem nú fer um heimsbyggðina í aðdraganda mótsins í Katar verði til þess að siðvæðing eigi sér stað á vettvangi knattspyrnunnar og að landssambönd samþykki aldrei aftur að mótið verði haldið í ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin og blóði fólks úthellt án minnstu iðrunar. Við skulum sameinast um þessa kröfu gagnvart íslenskum stjórnvöldum og forystufólki í íþróttum.
Um leið ættu blóðvellirnir í Katar að vera okkur öllum áminning um að ekki er gefið að almenningur njóti þeirra réttinda og verndar sem Íslendingar hafa borið gæfu til að sameinast um. Í því samhengi skal minnt á mannréttindabaráttu á Vesturlöndum og varðstöðu samtaka, sambanda og félaga um þau gildi. Verkalýðshreyfingin hefur ásamt öðrum staðið þar í broddi fylkingar til að tryggja kjörin, auka réttinn og verja mannlega reisn. Reynslan kennir að baráttu gegn ofríki fjármagns og tilraunum valdastétta til að grafa undan réttindum launafólks lýkur aldrei.
Alþýðusambandið mun á meðan HM í Katar fer fram minna á þau grófu mannréttindabrot sem framin voru í tengslum við mótið. Jafnframt verður leitast við að halda á lofti minningu þeirra þúsunda sem týndu lífi við að gera kleift að halda heimsmeistarakeppnina í þessu einræðisríki afturhalds og spillingar.
Minna má það ekki vera.