30.06.21

Heilt launatímabil til útborgunar 1. júlí
 
Betri vinnutími í vaktavinnu tók gildi þann 1. maí síðastliðinn og þar með mesta kerfisbreyting á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu í áratugi. Nú um mánaðarmótin er önnur útborgun samkvæmt nýju kerfi, en sú fyrsta sem nær yfir heilt launatímabil.  Þá verða reglubundin mánaðarlaun greidd fyrir tímabilið 1. – 31. júní en breytileg laun greidd fyrir tímabilið 16. maí – 15. júní  eða 11. maí - 10. júní sbr. fyrri útborganir launagreiðenda. 
 
Fræðsluefni 
Á www.betrivinnutimi.is má finna fræðslumyndband um launaseðilinn ásamt glærukynningu til þess að auðvelda starfsfólki og stjórnendum að átta sig á breytingunum. Einnig er vísað á spurt og svarað og leiðbeiningar um yfirferð á launaseðli. Því til viðbótar er bent á myndband sem Reykjavíkurborg hefur gert þar sem farið er yfir launaseðil skref fyrir skref. 
 
Stjórnendur og starfsfólk eru hvattir til þess að kynna sér þetta efni vel.  
Ferill ef starfsfólk telur sig ekki fá rétt laun
Gert er ráð fyrir því að starfsfólk leiti til síns stjórnanda, eins og áður, ef það telur sig ekki fá rétt laun í launaútborgun 1. júlí. Þarfnist stjórnandi frekari útskýringa er bent á að leita svara eins og við á og unnt er innan stofnunar/vinnustaðar, hvort heldur sem er hjá launafulltrúa eða lykilaðilum á vinnustað.
 
Komi upp sú staða að hópur sé talinn lækka í launum vegna kerfisbreytinganna þrátt fyrir að innleiðingin hafi verið í takt við leiðarljós og markmið verkefnisins er mikilvægt að greina hópinn nánar sbr. gátlista. Þegar hópur hefur verið greindur eru gögn send til viðkomandi launagreiðanda sbr. ferli einstakra mála.
 
Heilt launatímabil til útborgunar 1. júlí  - mynd