TILGREIND SÉREIGN

Lengi hefur verið rætt um samræmingu lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Kjarasamningur ASÍ og SA frá janúar 2016 hafði meðal annars það að markmiði að ná þessari samræmingu.

Þar var meðal annars samið um að framlag launagreiðenda til tryggingadeilda lífeyrissjóða skyldi hækka í áföngum úr því að vera 8% árið 2015 í það að vera 11,5% árið 2018.

Framlag launþega verður áfram 4% og hækkar því framlag í til lífeyrissjóðanna úr 12,0% af launum í 15,5% af launum á þremur árum eða um 29%.

Með þessu samkomulagi ASÍ og SA er jafnframt innleidd sú nýjung að sjóðfélaginn hefur val um að ráðstafa hækkuninni í tilgreinda séreign. Ef ekkert er valið fer viðbótariðgjaldið allt í samtryggingu. Tilgreind séreign verður eign sjóðfélagans og erfanleg. Hún verður háð ákveðnum reglum sem gefa aukið svigrúm til að hefja lífeyristöku. Tilgreinda séreignin er laus til útborgunar frá og með 67 ára aldri en þó er hægt að hefja útgreiðslu allt að fimm árum fyrr, eða við 62 ára aldur. Tilgreinda séreign verður ekki hægt að nýta inn á greiðslu fasteignalána, né nýta hana til fasteignakaupa.
Ljóst var frá upphafi að þetta ákvæði samningsins kallaði á breytingar á lögum og samþykktum lífeyrissjóða. Á aukaársfundi Stapa þann 22. júní voru samþykktar breytingar á samþykktum sjóðsins til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru vegna tilgreindrar séreignar. Næsta skref er að samþykktirnar fara til umsagnar hjá FME og samþykktar hjá fjármálaráðherra.
Upplýsingar um tilgreinda séreign verða birtar á vef sjóðsins um eða eftir næstu mánaðamót. Þar verður meðal annars eyðublað sem byggir á upplýstri ákvörðun sjóðfélaga og gefur lífeyrissjóðnum fyrirmæli um hvort og þá hversu mikið á að fara í tilgreinda séreign.

Gögn frá aukaársfundinum: